Rúnar Þór Sigurgeirsson, vinstri bakvörður danska úrvalsdeildarliðsins Sønderjyske, hefur orðið fyrir alvarlegum meiðslum og verður frá keppni það sem eftir er tímabilsins.
Rúnar Þór, sem gekk í raðir Sønderjyske í sumar frá hollenska liðinu Willem II, meiddist í byrjun leiks gegn FC Kaupmannahöfn í lok september. Nánari skoðun leiddi í ljós að hann hafði slitið krossband og því bíður hans langt endurhæfingarferli.
Í færslu á Instagram þakkaði Rúnar Þór fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og sagðist staðráðinn í að koma sterkari til baka.
„Ekki beint drauma byrjun í nýju liði og mikið sjokk, slitið krossband. Það koma hindranir á leiðinni og þarna lenti ég á einni. Virkilega þakklátur fyrir alla í kringum mig sem styðja mig og munu hiklaust hjálpa mér að koma sterkari til baka,“ skrifaði Rúnar Þór á Instagram-síðu sinni.
Tímabilið hefur þannig tekið óvænta stefnu fyrir Keflvíkinginn, sem hafði verið hluti af byrjunarliði Sønderjyske í upphafi leiktíðar. Gert er ráð fyrir að hann snúi ekki aftur til leiks fyrr en næsta sumar.
View this post on Instagram