Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Rúnar Már með mark og stoðsendingu í sigri á BATE

Rúnar Már Sigurjónsson lagði upp eitt og skoraði annað er Astana lagði Willum og félaga í BATE

Mynd/KazFootball.kz

Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Astana sem tók á móti BATE Borisov í undankeppni Evrópudeildarinnar um laust sæti í riðlakeppninni. Willum Þór Willumsson kom inná sem varamaður hjá BATE þegar rétt um hálftími var eftir af venjulegum leiktíma.

Astana komst yfir á 23. mínútu leiksins en Rúnar Már lagði upp markið fyrir félaga sinn Marin Tomasov. Rétt undir lok fyrri hálfleiks var staðan orðin 2-0 og aðeins sex mínútum eftir að dómari leiksins hafði flautað seinni hálfleikinn á fékk Astana vítaspyrnu og þar steig Rúnar á punktinn og skoraði, lokatölur 3-0 fyrir Astana. Astana er því í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna að viku liðinni.

Rúnar Már, sem lék allan leikinn í dag, hefur nú skorað fjögur mörk í Evrópudeildinni í sumar og lagt upp önnur tvö í aðeins fimm leikjum.

Áður en liðin mætast að nýju spila Astana við Taraz í úrvalsdeildinni í Kasakstan. Astana er í 3. sæti eftir 22 umferðir með 44 stig, þremur stigum á eftir toppliði Kairat Almaty en Astana á leik til góða.

Willum og félagar í BATE eru í öðru sæti í efstu deildinni í Hvíta-Rússlandi með 40 stig eftir 16 leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Dinamo Brest en eiga einnig leik til góða.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun