Fylgstu með okkur:

Fréttir

Rúnar Már: Eiður hvatti mig til að fara til Kasakstan

Rúnar Már fékk hvatningu frá Eiði Smára um að fara til Kasakstan og spila þar.

Mynd/Astana

Fréttamiðilinn Sport.kz í Kasakstan tók Rúnar Má Sigurjónsson, leikmann Astana og íslenska landsliðsins, tali á dögunum, eftir félagaskipti hans til Astana í Kasakstan.

Í viðtalinu ræðir Rúnar Már hvað hann vissi um Kasakstan áður en hann kom þangað, kraftaverkið á Evrópumótinu með landsliðinu árið 2016 og samskipti sín við Eið Smára Guðjohnsen í aðdraganda félagaskipta sinna til Astana.

Astana spilaði í dag á útivelli við Ordabasy Shymkent sem endaði með 3-2 tapi Astana. Rúnar Már var ekki leikmannahópi Astana í leiknum í dag.

„Ég vissi lítið um Kasakstan. Þetta land er mikið stærra en ég hélt í fyrstu. Í hreinskilni sagt þá vissi ég ekki hvar Kasakstan væri á landakortinu áður en ég kom hingað. Ég var því mjög hissa hversu stórt landsvæðið var þegar ég komst að því. Ég mun koma til með að búa í höfuðborginni Nur-Sultan, sem er ung og falleg borg, og ég tel mig hafa góðan tíma til að kynnast þeirri borg,“ sagði Rúnar Már.

Rúnar Már var í leikmannahópi íslenska landsliðsins árið 2016 þegar það komst alla leið í 8-liða úrslit á Evrópumótinu í Frakklandi, en hann var spurður út í það hvernig stæði á því að lítið land eins og Ísland hafi náð svona góðum árangri á stórmóti.

„Þessi árangur tókst, þökk sé vinnuframlaginu hjá landsliðinu. Við börðumst hver fyrir annan og það skilaði sér langt. Þetta var að sjálfsögðu frábært mót, sérstaklega leikurinn við England. Það er ekkert launungarmál að Íslendingar elska fótboltann á Englandi og sigurinn gegn þeim var því sérstaklega sætur í ljósi þess.“

Rúnar Már var í viðtalinu spurður út í Eið Smára Guðjohnsen, einn besta knattspyrnumann í sögu Íslands, og hvort hann hafi ekki reynst íslenska landsliðinu mikill leiðtogi á stórmótinu í Frakklandi.

„Jú, að sjálfsögðu. Eiður er að öllum líkindum einn af okkar bestu fótboltamönnum frá upphafi. Hann var mikil fyrirmynd fyrir marga yngri leikmenn þegar hann lék með Chelsea og Barcelona og skoraði mörk þar. Það var mikill heiður að fá að spila með honum í landsliðinu. Ég lærði mikið af honum og hann er mikil goðsögn í íslenskum fótbolta.“

Blaðamenn í Kasakstan forvitnuðust um það hvort Rúnar Már væri með símanúmerið hans Eiðs Smára í símaskránni sinni. Rúnar svaraði því játandi og sagðist hafa heyrt í honum nokkru fyrir félagaskipti sín yfir til Astana.

„Ég talaði við Eið í aðdraganda félagskiptanna, en hann er nákunnugur umboðsmanni mínum. Eiður hvatti mig til að fara til Kasakstan og njóta þess að spila þar, ef mér þætti þetta vera gott upp á ferilinn minn.“

Eiður Smári og Rúnar Már voru báðir varamenn í leiknum við England á Evrópumótinu árið 2016. (Eiður í treyju númer 22 og Rúnar í treyju númer 16):

ÍV/Getty

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir