Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Rúnar Már átti þátt í sigri Astana í Meist­ara­deild­inni

Rúnar Már átti þátt í marki Astana sem sigraði CFR Cluj frá Rúmeníu í undan­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu.

Mynd/KazFootball.kz

Landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson átti þátt í marki Astana sem vann í dag CFR Cluj frá Rúmeníu 1-0 í fyrri leik liðanna í 1. um­ferð undan­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu, en leikið var á heimavelli Astana.

Í frétt á Vísi kemur fram að Rúnar Már hafi tekið hornspyrnu sem skapaði mikinn usla í vörn CFR Cluj og upp úr henni náði Evgeniy Postnikov að skora fyrir Astana. Þetta reyndist eina markið í leiknum og lokatölur því 1-0 fyrir Astana.

Rúnar Már lék allan leikinn á miðjunni í dag. Seinni leikur liðanna mun fara fram í Rúmeníu í næstu viku en liðið sem hefur betur í einvíginu mætir Maccabi Tel-Aviv frá Ísrael í næstu umferð.

Rúnar Már gekk til liðs við Astana í síðasta mánuði og hefur til þessa leikið tvo deildarleiki í efstu deildinni í Kasakst­an. Í síðasta deildarleik skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir liðið, sem má finna hér.

Astana er sem stendur á toppi deildarinnar í Kasakst­an.


Kolbeinn lék í tapi

Kolbeinn Sigþórsson lék síðustu 25. mínúturnar fyrir AIK þegar liðið beið lægri hlut fyrir Ararat-Armeníu, 2-1, í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í dag.

Leikurinn byrjaði heldur illa fyrir AIK því Ararat-Armeníu skoraði úr vítaspyrnu strax á 3. mínútu leiksins og tíu mínútum síðar fékk Robert Lundström, leikmaður AIK, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

AIK náði að jafna metin í 1-1 á 39. mínútu en rétt fyrir leikhléið skoraði Petros Avet­isy­an fyrir Ararat-Armeníu sem reyndist sigurmarkið í leiknum.

Seinni leikur liðanna verður á miðvikudaginn í næstu viku og mun hann fara fram í Stokkhólmi, á heimavelli AIK. Sigurvegarinn í einvíginu mætir annað hvort Val eða Maribor í næstu umferð.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið