Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Rúnar Alex stóð í markinu þegar Dijon tapaði fyrir PSG

Tap hjá Rúnari Alexi og félögum hans í Dijon gegn PSG í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

ÍV/Getty

Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Dijon sem steinlá fyrir PSG, 0-4, á heimavelli í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Þetta var í annað sinn á stuttum tíma sem Rúnar er í byrjunarliðinu hjá Dijon. Síðast var hann í byrjunarliði félagsins þegar liðið mætti PSG í frönsku bikarkeppninni í lok síðasta mánaðar.

Rúnar var í rammanum í fyrstu fimmtán deildarleikjum félagsins á leiktíðinni en missti svo stöðu sína til markvarðarins Bobby Allain.

Rúnar fékk á sig mark snemma í leiknum í kvöld þegar varnarmaður PSG, Marquinhos, skoraði skallamark upp úr hornspyrnu.

Þegar 28. mínútur voru liðnar af leiknum gerði Rúnar virkilega vel þegar hann náði að verja skottilraun Kylian Mbappé af stuttu færi. Mbappé er markahæsti leikmaður deildarinnar þessa stundina, með alls 25 mörk.

Rétt undir leikhlé þurfti Rúnar að bíta í það súra epli að fá annað mark á sig. Áðurnefndur Mbappé sá um að skora það mark.

Angel Di Maria skoraði snemma í síðari hálfleik, á 50. mínútu leiksins, og Choupo-Moting gerði endanlega út leikinn þegar hann skoraði í framlengingu. Þar við sat í markaskorun í leiknum og lokaniðurstaða 0-4 tap hjá Rúnari og félögum hans í Dijon.

Dijon er eftir leikinn enn í 18. sæti deildarinnar með 21 stig og þar með sex stigum frá öruggu sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun