Fylgstu með okkur:

Fréttir

Rún­ar Alex besti maður vall­ar­ins

Rúnar Alex var frábær þegar Dijon vann dýrmætan sigur í gærkvöldi.

ÍV/Getty

Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Dijon í frönsku úrvalsdeildinni þegar liðið sigraði Strasbourg, 2-1, á ögurstundu í gærkvöldi.

Rúnar Alex átti stórleik og var valinn maður leiksins fyrir frammistöðu sína í leiknum.

Rúnar Alex fékk 7 í einkunn fyrir framlag sitt í leiknum í gær og aðeins Julio Tavarés fékk sömu einkunn en hann skoraði fyrra mark liðsins og lagði upp það seinna.

Dijon komst yfir með marki rétt undir lok fyrri hálfleiks og Strasbourg jafnaði metin á 68. mínútu. Allt benti til þess að leikurinn myndi enda í jafntefli en allt kom fyrir ekki. Í uppbótartíma seinni hálfleiks gerði Chang-Hoon Kwon sér lítið fyrir og skoraði sigurmark fyrir Dijon.

Dijon er í fallsæti í frönsku úrvalsdeildinni þegar aðeins tveir leikir eru eftir en vonin lifir enn hjá liðinu, því Mónakó, sem er í öruggu sæti, er aðeins með tveimur stigum meira.

Rúnar Alex og félagar í Dijon eiga erfiðan leik í næstu umferð gegn PSG á útivelli. Í síðustu umferðinni kemur þá Toulouse í heimsókn til Dijon.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir