Fylgstu með okkur:

Fréttir

Rubin Kazan hef­ur áhuga á Viðari Erni

Rússneska liðið Rubin Kazan hef­ur áhuga á að fá Viðar Örn til liðs við sig í sumar.

Mynd/Expressen

Rússneska liðið Rubin Kazan hefur sýnt áhuga á að fá íslenska framherjann Viðar Örn Kjartansson til liðs við sig, að því er fram kemur á rússneska vefmiðlinum Sport Business Gazeta, en það er einnig Fótbolti.net sem greinir frá þessu í dag.

Viðar Örn, sem er 29 ára, hefur leikið mjög vel með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni þar sem hann hefur skorað fimm mörk í tólf deildarleikjum með liðinu, sem er í 7. sæti deildarinnar og 5 stigum frá Evrópusæti.

Viðar Örn er á lánssamningi hjá Hammarby frá Rostov í Rússlandi og sá samningur rennur út um miðjan næsta mánuð.

Í byrjun þessa mánaðar var Viðar Örn ekki viss með hvaða liði hann mun spila fyrir þegar lánssamningur hans hjá Hammarby rennur út. Hann sagði að það væri allt undir Rostov komið að ákveða framhaldið.

„Það er erfitt að segja hvað gerist. Ég er samningsbundinn Rostov og ég gæti endað hvar sem er, kannski gæti ég farið á lán í eitt ár í viðbót á öðrum stað en í Svíþjóð og mögulega gæti ég spilað með Rostov. Það ætti að koma í ljós á næstu vikum,“ sagði Viðar Örn í samtali við Vísi fyrr í mánuðinum.

„Þeir sögðu við mig að þeir myndu mögulega vilja fá mig aftur og það er erfitt að segja. Það þarf að finna réttan stað þar sem þjálfarinn hefur trú á þér,“ sagði Viðar Örn við Vísi.

Viðar Örn á þrjú ár eftir af samningi sínum við Rostov en hann var keyptur til félagsins á síðasta ári eftir að hafa staðið sig vel með Maccabi Tel Aviv í Ísrael.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir