Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Rostov bjargaði jafn­tefli í lok­in

Íslendingaliðið Rostov náði dramatísku jafntefli í Rússlandi í kvöld.

Mynd/Самара

Aleksandr Zuev bjargaði stigi fyr­ir Íslendingaliðið Rostov með jöfn­un­ar­marki í upp­bót­ar­tíma í 2-2 jafn­tefli gegn Spartak Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni í kvöld.

Ragnar Sigurðsson bar fyrirliðaband Rostov í kvöld og lék að vanda allan leikinn í vörninni. Björn Bergmann Sigurðarson sat allan tímann á varamannabekk Rostov í leiknum.

Rostov náði forystu með marki frá Khoren Bayramyan á 23. mínútu leiksins. Forysta Rostov entist ekki lengi því aðeins þremur mínútum síðar skoraði Luiz Adriano fyrir Spartak Moskvu með marki úr vítaspyrnu. Staðan eftir fyrri hálfleikinn var 1-1.

Á 66. mínútu í seinni hálfleiknum komst Spartak Moskva yfir í leiknum. Georgiy Dzhikiya skoraði markið sem kom upp úr hornspyrnu.

Rostov hélt hins vegar áfram að sækja og í uppbótartímanum var Aleksandr Zuev á skotskónum og tryggði liðinu stig.

Rostov var að leika sinn annan leik í rússnesku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er sem stendur í öðru sæti deildarinnar með 4 stig. Liðið vann 2-1 sigur á Orenburg í 1. umferð deildarinnar.

Fyrr í dag lék Jón Guðni Fjóluson síðustu mínúturnar fyrir Krasnodar sem vann 3-2 útisigur gegn FC Ufa. Krasnodar tapaði fyrsta leiknum á leiktíðinni og er með 3 stig í 8. sæti deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun