Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Rosengård styrkti stöðu sína á toppn­um – Kristianstad með góðan sigur

Glódís Perla og stöllur hennar í Rosengård eru komnar með fjögurra stiga forskot í sænsku úrvalsdeildinni.

Mynd/aftonbladet

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í Rosengård styrktu stöðu sína í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar þær sigruðu Linhamn Bunkeflo á heimavelli sínum, 3-0.

Glódís Perla lék allan leikinn í vörninni hjá Rosengård sem náði fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar með sigri sínum í kvöld. Liðið er með 30 stig eftir 13 umferðir og hefur unnið níu af fyrstu 13 leikjum sínum í deildinni.

Andrea Thorisson hóf leikinn á varamannabekknum hjá Linhamn Bunkeflo en var skipt inn á þegar 13 mínútur voru eftir. Bunkeflo er aðeins með 4 stig í 11. sæti, sem er næstneðsta sæti deildarinnar.

Íslendingaliðið Kristianstad fagnaði þá góðum sigri í kvöld en liðið sigraði Vaxjo, 3-1, á heimavelli sínum í kvöld.

Sif Atladóttir spilaði allan leikinn í vörninni hjá Kristianstad á meðan Svava Rós Guðmundsdóttir sat allan tímann á varamannabekknum hjá liðinu.

Hvorki gengur né rekur hjá Íslendingaliðinu Djurgården en liðið tapaði í kvöld gegn Eskilstuna, 4-2, á útivelli. Djurgården hefur nú tapað fimm leikjum í röð og er með 9 stig í 10. sæti. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Djurgården en Guðrún Arnardóttir var allan tímann á varamannabekknum.

Þá kom Anna Rakel Pétursdóttir við sögu á 35. mínútu er lið hennar Linköpings tapaði fyrir Kungsbacka, 2-1, í kvöld. Linköpings er með 22 stig í 5. sæti.

Matthías Vilhjálmsson var í byrjunarliði Vålerenga sem gerði 1-1 jafntefli við Stabæk á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Vålerenga komst í forystu eftir aðeins þrjár mínútur í seinni hálfleik með marki frá Mayron George en 17 mínútum síðar jafnaði Stabæk metin og þar við sat.

Matthías lék allan tímann í liði Vålerenga í kvöld, en hann hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Vålerenga á leiktíðinni. Hann hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur þrjú í 16 leikjum með liðinu.

Vålerenga er í 6. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 17 umferðir.

Samúel Kári Friðjónsson tók út leikbann þegar lið hans Viking vann 2-1 sigur á Sarpsborg í kvöld. Axel Óskar Andrésson er enn fjarverandi vegna meiðsla og lék ekki með Viking í kvöld.

Þá var Kjartan Henry Finnbogason í byrjunarliði Vejle sem tapaði 1-0 fyrir Fredericia á heimavelli í dönsku 1. deildinni í kvöld. Vejle er í 7. sæti deildarinnar með 4 stig eftir fjórar umferðir.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun