Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Rosengård og Kristianstad byrja vel – Svava og Þórdís skoruðu

Íslendingaliðin Rosengård og Kristianstad hófu leiktíðina vel í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð í dag.

Svava Rós skoraði eitt mark og lagði upp annað í dag. ÍV/Getty

Íslendingaliðin Rosengård og Kristianstad hófu leiktíðina vel í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð í dag.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan tímann í vörn Rosengård sem hrósaði 0-1 útisigri á Eskilstuna United í dag. Sigurmark Rosengård kom í blálokin.

Rosengård endaði síðustu leiktíð í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og Glódís Perla lék alla 22 leiki liðsins á leiktíðinni ásamt því að skora fjögur mörk.

Þrír Íslendingar spiluðu í dag fyrir Kristianstad sem vann 5-1 stórsigur á Linhamn Bunkeflo. Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir voru báðar í byrjunarliði liðsins og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom inn á sem varamaður í leikhléi. Elísabet Gunnarsdóttir stýrir liðinu.

Andrea Thorisson kom inn á sem varamaður á 67. mínútu hjá Linhamn Bunkeflo.

Það leið ekki að löngu þar til Kristianstad var búið að skora fyrsta mark leiksins en Svava Rós skoraði strax á fimmtu mínútu leiksins. Annað mark liðsins kom á 10. mínútu og staðan í leikhléi var 2-0.

Eftir aðeins fimm mínútur í seinni hálfleik skoraði Kristianstad sitt þriðja mark í leiknum og Svava Rós sá um að leggja það upp.

Eftir klukkutíma leik skoraði síðan Þórdís Hrönn, sem var nýkomin inn á sem varamaður, og tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma kom fimmta markið hjá liðinu. Bunkeflo náði stuttu síðar að minnka muninn en leikurinn endaði með 5-1 sigri hjá Kristianstad.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun