Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ragnar valinn í lið umferðarinnar

Ragnar Sigurðsson var valinn í úrvalslið tuttugustu umferðar rússnesku úrvalsdeildarinnar.

ÍV/Getty

Ragnar Sigurðsson, leikmaður Rostov, var valinn í úrvalslið tuttugustu umferðar rússnesku úrvalsdeildarinnar af miðlinum Who Scored.

Rostov vann um helgina góðan 0-2 útisigur á Rubin Kazan í rússnesku úrvalsdeildinni. Ragnar Sigurðsson var allan tímann í vörn Rostov í leiknum og átti mjög góðan leik.

Björn Bergmann Sigurðarson, sem er einnig á mála hjá Rostov, lék fyrstu 66. mínúturnar í leiknum áður en hann var tekinn af velli.

Rostov skoraði bæði mörk sín í leiknum á síðustu mínútunum. Fyrra markið kom á 83. mínútu og það seinna á þeirri 89. mínútu.

Með sigrinum skaust Rostov upp fyrir andstæðing sinn um helgina, Rubin Kazan, í stigatöflunni. Rostov situr í sjötta sæti deildarinnar, með 29 stig.

Ragnar er um þessar mundir í landsliðsverkefni með íslenska landsliðinu sem mætir Andorra næsta föstudag og Frakklandi aðeins þremur dögum síðar í undankeppni Evrópumótsins 2020. Björn Bergmann var valinn í landsliðshópinn en hann hefur þurft að draga sig úr honum vegna meiðsla.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir