Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ragnar Sig: Mikilvægasti leikur tímabilsins er í dag

Íslendingaliðið Rostov mætir Lokomotiv Moskvu í afar mikilvægum leik í dag.

ÍV/Getty

Íslendingaliðið Rostov mætir Lokomotiv Moskvu í afar mikilvægum leik í dag en liðin mætast á nýjan leik í seinni leik sínum í undanúrslitum rússnesku bikarkeppninnar. Fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli á heimavelli Lokomotiv Moskvu.

Rostov situr í 8. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar og liðið á ekki lengur möguleika á að ná Evrópusæti í deildinni þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. 4. og 5. sæti deildarinnar gefa umspilssæti í Evrópudeildinni og Rostov er með sjö stigum minna en CSKA Moskva, sem er í 5. sætinu. Rostov getur hins vegar unnið sér inn þátttökurétt í Evrópudeildinni ef liðið vinnur bikarkeppnina.

Ragnar Sigurðsson leikur fyrir Rostov og hann telur leikinn í dag vera þann mikilvægasta á leiktíðinni.

„Ég tel leikinn í kvöld þann mikilvægasta á leiktíðinni. Við eigum heimaleik sem þýðir að við eigum góðan möguleika á að vinna leikinn í kvöld og komast í úrslitin. Þegar við erum upp á okkar besta þá getum við unnið öll lið,“ sagði Ragnar í samtali við rússneska miðla fyrr í dag.

Óvíst með þátttöku Björns Bergmanns í dag

Björn Bergmann Sigurðarson leikur einnig fyrir Rostov en óvíst er um þátttöku hans í leiknum í dag. Björn varð höfuðhöggi síðasta föstudag í leik með Rostov gegn Dynamo Moskvu.

Björn var borinn af velli á sjúkrabörum þegar lítið var eftir af leiknum en hann missti ekki meðvitund. Samkvæmt upplýsingum Íslendingavaktarinnar var Björn við ágæta heilsu fljótlega eftir leikinn og mátu læknar það sem svo að óvíst væri með þátttöku hans í leiknum í dag.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir