Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ragnar og Björn Bergmann spiluðu í tapi Rostov

Ragnar og Björn Bergmann léku báðir í 1-2 tapi Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Ragnar Sigurðsson var í vörninni hjá rússneska liðinu Rostov í dag þegar það tapaði, 1-2, gegn Lokomotiv Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni í dag.

Björn Bergmann Sigurðarson byrjaði á varamannabekknum hjá Rostov og kom við sögu á 82. mínútu leiksins.

Lokomotiv Moskvu byrjaði leikinn vel og komst strax í forystu á fimmtu mínútu leiksins með marki frá Jefferson Farfán. Rétt fyrir leikhléið fékk Rostov vítaspyrnu. Aleksey Ionov fór á punktinn fyrir Rostov og skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum skoraði Jefferson Farfán sitt annað mark í leiknum og tryggði því Lokomotiv Moskvu stigin þrjú í dag. Farfán hafði fengið fyrirgjöf inn í teig til sín og átti í kjölfarið fínan skalla sem endaði í marki Rostov. Lokatölur 1-2 Lokomotiv Mosku í vil.

Rostov er í 6. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 36 stig og í baráttu um að ná umspilssæti um þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. 4. og 5. sæti deildarinnar gefa umspilssæti í þeirri keppni. Rostov á fimm leiki eftir á leiktíðinni.

Jón Guðni Fjóluson sat þá allan tímann á varamannabekk Krasnodar sem gerði 1-1 við Akhmat í rússnesku úrvalsdeildinni í dag. Krasnodar er í 4. sæti með 43 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun