Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Patrik stóð í marki Southend United – Jóhann á bekknum

Patrik Sigurður lék sinn fyrsta leik fyrir Southend United og Jón Daði var í byrjunarliði Millwall.

Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í marki Southend United frá upphafi til enda leiksins þegar liðið beið lægri hlut fyrir Burton Albion, 3-2, í ensku C-deildinni í dag.

Patrik, sem er 19 ára gamall, var í vikunni lánaður frá Brentford til Southend United vegna meiðslavandræða liðsins þar sem aðalmarkvörðurinn er frá vegna meiðsla, en um er að ræða neyðarlánssamning sem gildir í eina viku.

Sout­hend er í næst­neðsta sæti í ensku C-deild­inni og hefur aðeins unnið þrjá leiki af 33 á leiktíðinni. Sol Camp­bell er knattspyrnustjóri liðsins og honum til aðstoðar er Hermann Hreiðarsson.

Jóhann Berg Guðmundsson var allan tímann á varamannabekknum hjá Burnley þegar liðið vann 3-0 sigur á Bour­nemouth í ensku úrvalsdeildinni. Matej Vydra, Jay Rodrigu­ez og Dwig­ht Mc­Neil skoruðu mörk Burnley í seinni hálfleik en liðið er í 8. sæti deildarinnar með 37 stig.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Millwall og lék fyrstu 64 mínúturnar í 1-0 tapi gegn Wigan Athletic í ensku B-deildinni. Millwall er nú í 11. sæti deildarinnar.

Ísak Snær Þorvaldsson sat allan tímann á varamannabekk Fleetwood Town er liðið hafði betur gegn Portsmouth, 1-0, í ensku C-deildinni. Fleetwood Town er með 54 stig í sjötta sæti, því síðasta sem gef­ur þátt­töku­rétt í um­spili fyr­ir sæti í B-deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun