Fylgstu með okkur:

Fréttir

Óvissa um framtíð Emils

Emil segist ekki vera viss um það hvort hann verði áfram hjá Udinese á næstu leiktíð.

ÍV/Getty

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson, leikmaður ítalska félagsins Udinese, segist ekki vera viss um það hvort hann verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.

Emil verður í lok þessa mánaðar samningslaus en það er enn óvíst hvar hann mun leika á næsta keppnistímabili.

Um mitt sumar í fyrra gekk Emil í raðir Frosinone eftir að hafa leikið tvær leiktíðir fyrir Udinese. Emil lék aðeins sex leiki fyrir Frosinone þar sem hann meiddist illa á hné og þurfti að fara í uppskurð.

Emil komst að þeirri niðurstöðu að rifta samningi sínum við Frosinone í byrjun þessa árs og í marsmánuði gerði hann stuttan samning við Udinese sem rennur út í lok mánaðarins.

Emil er í landsliðshópi Íslands fyr­ir kom­andi verk­efni í undan­keppni EM á Laug­ar­dals­velli gegn Albaníu og Tyrklandi, 8. og 11. júní. Hann segir að það muni koma í ljós varðandi framtíð sína hjá Udinese eftir landsleikina.

„Ég er að renna út á samningi þann 30. júní og það eru búnar að vera ákveðnar þreifingar. Við ætlum aðeins að sjá hvað gerist eftir þessa landsleiki. Þeir eru eftir að klára ákveðin mál innan félagsins, en við viljum fyrst sjá hvað gerist þar og svo ætlum við að ræða málin,“ sagði Emil í samtali við Vísi fyrr í dag.

Emil útilokar það að snúa aftur til Íslands.

„Mér langar að vera áfram úti. Ég er búinn að vera á Ítalíu í tólf ár og ég er því miður ekki á leiðinni heim,“ sagði Emil við Vísi.

Emil jafnaði sig á meiðslum fyrir nokkrum mánuðum og lék þrjá leiki fyrir Udinese í síðasta mánuði. Hann skoraði glæsilegt mark fyrir liðið í sigri gegn Cagliari í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í þarsíðustu viku. Emil átti frábært skot fyrir utan teig sem flaug yfir markmann Cagliari. Það mark má finna hér.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir