Fylgstu með okkur:

Fréttir

Otaði bláum uppþvotta­bursta að fyrirliða Tyrkja – Mikil reiði í Tyrklandi

Allt varð vitlaust í Tyrklandi í gær eftir að óþekktur maður otaði bláum uppþvotta­bursta að fyrirliða tyrkneska landsliðsins.

Mynd/Fotomac

Það varð bókstaflega allt vitlaust á samfélagsmiðlum í Tyrklandi í gær eftir að óþekktur maður fylgdi eftir tyrkneskum fréttamönnum í flugstöð Leifs Eiríkssonar og otaði uppþvotta­bursta að Emre Belözoglu, fyrirliða tyrkneska landsliðsins, eins og hljóðnema væri um að ræða.

Þetta axarskapt hjá óþekkta manninum var því aðeins til að bæta gráu ofan á svart hjá fólkinu í Tyrklandi, því tyrklenska landsliðið varð í gær fyrir verulegum töfum í Leifsstöð og þurfti að fara í gegnum sérstakt öryggiseftirlit og vegabréfaskoðun, sem tók dágóðan tíma. Leikmenn Tyrklands voru ekki par sáttir:

Fréttamenn frá Tyrklandi tóku á móti landsliði sínu á Leifstöð og náðu tali af fyrirliðanum Emre Belözoglu. Margir fréttamenn slóu hring utan um fyrirliðann og einn í hópnum otaði bláum uppþvotta­bursta að fyrirliðanum, eins og um hljóðnema væri að ræða. Einstaklingurinn sem hélt á burstanum náði að varpa fram spurningu en svo virðist vera að hann sé ekki frá Íslandi, heldur að öllum líkindum ferðamaður og mögulega gert þetta athæfi fyrir Youtube-rás sína, sem er þó ekki staðfest. Þetta ótrúlega atvik má sjá hér að neðan, frá nokkrum sjónarhornum.

Tyrkir töldu manninn með burstann vera frá Íslandi

Benedikt Grétarsson, íþróttablaðamaður Vísis í hlutastarfi, varð fyrir miklu aðkasti á samfélagsmiðlum sínum út af þessu athæfi. Svo virðist vera að tyrkneski blaðamaðurinn Murat Özen hafi sagt samlöndum sínum að maðurinn með burstann væri Benedikt, sem var mikil fjarstæða og reyndist ekki á rökum reist.

Benedikt sagði í samtali við Vísi að hann hafi fengið hótanir sem skiptu þúsundum og margar þeirra voru morðhótanir. Benedikt segist hafa fengið hótanir til sín á bæði Twitter og Facebook og var því fljótur að slökkva á tilkynningum á þeim miðlum, enda mikið áreiti frá Tyrkjum.

Langt frá því að vera líkir:

Benedikt var ekki eini íþróttafréttamaðurinn frá Íslandi sem þurfti að sitja undir ásökunum um að vera maðurinn með burstann. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður hjá RÚV, Magnús Már Einarsson, ritstjóri hjá Fótbolta.net og Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur hjá Sýn, fengu einnig sinn skerf af hótunum frá fólki í Tyrklandi.

Ut­an­rík­is­ráðherra Tyrk­lands ósáttur

Mevlüt Çavuşoğlu, ut­an­rík­is­ráðherra Tyrk­lands, sagði sína skoðun um meðferðina á landsliði sínu á Leifstöð í gær. Hann gagngrýndi framkomuna á Face­book-síðu sinni.

Çavuşoğlu sagði í færslu sinni á Facebook að meðferðin sem tyrkneska landsliðið fékk hafi verið óásættanleg er varðar diplómatísk samskipti Íslands og Tyrklands og mannúðlega meðferð á leikmönnum. Að lokum segir hann að stjórnvöld í Tyrklandi ætli að kafa dýpra í málið.

Fjölmargir fjölmiðlar í Tyrklandi fjölluðu heilmikið um málið

Mynd/Samsett

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir