Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Oliver og Viðar Ari á skotskónum í norska bikarnum

Oliver Sigurjónsson og Viðar Ari Jónsson voru báðir á skot­skón­um með liðum sín­um í dag.

Oliver gerði eitt marka Bodø/Glimt í dag. Mynd/Bodø/Glimt

Oliver Sigurjónsson gerði eitt marka Bodø/Glimt sem vann stórsigur á Aga, 0-8, í 1. umferð norska bikarsins í dag. Oliver og félagar eru því komnir áfram í 2. um­ferð norska bik­ars­ins.

Oliver bar fyrirliðaband Bodø/Glimt í leiknum í dag en hann skoraði fjórða mark liðsins í dag. Hann lék allan leikinn og fékk á 61. mínútu leiksins gult spjald.

Bodø/Glimt hefur farið vel af stað í norsku úrvalsdeildinni sem hófst fyrir nokkrum vikum. Liðið er í 3. sæti deildarinnar með 10 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar. Oliver hefur komið einu sinni við sögu í deildinni á leiktíðinni.

Viðar Ari skoraði fyrir Sandefjord

Viðar Ari Jónsson spilaði allan tímann og skoraði eitt mark þegar lið hans Sandefjord bar sigur úr býtum gegn Tøns­berg, 2-0, í 1. umferð norska bikarsins í dag. Þetta var fyrsta mark Viðars Ara fyrir Sandefjord en hann gekk í raðir félagsins frá Brann fyrir leiktíðina.

Emil Pálsson leikur einnig með Sandefjord en hann glímir við meiðsli.

Viðar Ari skoraði annað mark Sandefjord í leiknum á 83. mínútu og tryggði því liði sínu sæti í næstu umferð norska bikarsins.

Sandefjord leikur í B-deildinni í Noregi og leiktíðin hefur byrjað vel hjá liðinu, sem er í 2. sæti deildarinnar með 9 stig eftir fyrstu fimm leikina.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun