Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ólafur ósáttur með sænskan blaðamann: „Hann vildi setja þetta fram í æsifréttastíl”

Umboðsmaður Elías­ar Más er ekki par sátt­ur með fréttaflutning dagblaðsins Göteborgs-Tidningen varðandi frétt um skattskuld.

ÍV/Getty

Sænska dag­blaðið Göteborgs-Tidningen greindi frá því í gær að Elías Már Ómarsson skuldaði um 357 þúsund sænskra króna, eða um 5 millj­ón­ir ís­lenskra króna, í skatta í Svíþjóð.

Skattaskuldirnar voru sagðar vera 14 talsins. Átta þeirra áttu að tengjast launagreiðslum frá tíma Elíasar hjá Gautaborg í Svíþjóð og sagðar hljóða allar upp á 43 þúsund sænskra króna, sem samsvarar um hálfri milljón íslenskra króna. Hinar sex skuldirnar voru sagðar tengjast innheimtu vegatolla.

Elías stofnaði fyrir nokkrum árum fyrirtæki á sinni kenntitölu þar sem hann ætlaði að flytja inn vörur sem ekkert varð úr. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður hans, reyndi að útskýra málið í samtali við sænskan blaðamann og tjáði honum að Elías væri að fara að skila inn framtali til að fella niður skuldina.

„Það hefur sænskur blaðamaður verið að hringja í hann að undanförnu. Ég skýrði málið út fyrir honum þ.e. í fyrsta lagi að þetta ætti ekki erindi í fjölmiðla og í öðru lagi að þetta væri áætlun á firma í eigu Elíasar og ef skattaskýrslu væri skilað fyrir 2019 þá væri þessi skuld ekki til staðar. Þetta er ég búinn að fá staðfest hjá skattinum í Svíþjóð. Hann er að skila framtalinu og þá fellur skuldin niður,“ sagði Ólafur í samtali við Íslendingavaktina í dag.

Ólafur er þar með afar ósáttur með fréttamann Göteborgs-Tidningen hvernig hann fór að þessu.

„En það virtist sama hvað ég sagði þessum blessaða blaðamanni; hann vildi setja þetta fram í æsifréttastíl,“ sagði Ólafur ennfremur.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir