Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Ögmundur öfl­ug­ur í frá­bærri end­ur­komu

Ögmundur var á meðal bestu manna þegar lið hans vann góðan endurkomusigur í Grikklandi í dag.

Mynd/fws.gr

Landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson stóð að venju á milli stanganna hjá liði sínu AE Larissa sem mætti Aris Thessaloniki á útivelli í efstu deildinni í Grikklandi í dag.

Lokatölur í leiknum urðu 3-2 fyrir AE Larissa. Leikurinn fór illa af stað hjá Ögmundi og félögum en Aris Thessaloniki fékk óskabyrjun því eftir aðeins tólf mínútur var liðið komið með 2-0 forystu. Ögmundur gat lítið gert í mörkunum sem hann fékk á sig, fyrst var skorað með skalla á fjærstöng af stuttu færi eftir hornspyrnu og svo tókst liðinu að skora eft­ir að hafa tekið frá­kast eft­ir góða markvörslu Ögmundar.

Í stað þess að leggja árar í bát minnkaði AE Larissa muninn niður í eitt mark á 20. mínútu og á 33. mínútu jafnaði liðið metin í 2-2.

Fjörið var minna í seinni hálfleik og það var ekki fyrr en fimmtán mín­út­ur voru til leiks­loka sem AE Larissa skoraði sigurmarkið í leiknum. Lokatölur urðu því 3-2 fyrir AE Larissa.

Ögmundur átti góðan leik samkvæmt grískum miðlum en miðilinn SDNA gefur okkar manni 7 af 10 mögulegum í einkunnargjöf sinni fyrir leikinn og er hann því á meðal efstu manna. Amr Warda og Marko Nunic, leikmenn AE Larissa, fá báðir 8 í einkunn en þeir sáu um markaskorun liðsins í leiknum.

Þetta var annar sigur AE Larissa á leiktíðinni og liðið er nú í 7. sæti með 7 stig eftir fimm umferðir.

Svipmyndir úr leiknum má sjá hér að neðan.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið