Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ögmundur lék í jafntefli – Sverrir sat á bekknum

Íslendingaliðin AE Larissa og PAOK mættust í grísku úrvalsdeildinni.

Íslendingaliðin AE Larissa og PAOK mættust í grísku úrvalsdeildinni í kvöld.

Landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson leikur fyrir AE Larissa og hann varði mark liðsins í dag.

Sverrir Ingi Ingason er á mála hjá PAOK en hann sat sem fastast á varamannabekk liðsins í dag.

Markalaust var í leikhléi en á 55. mínútu komst PAOK 1-0 yfir. Rúmum tíu mínútum síðar jafnaði AE Larissa metin og þar við sat. Lokatölur urðu 1-1.

AE Larissa, lið Ögmundar, siglir enn lygnan sjó í deildinni með 31 stig þegar aðeins tvær umferðir eru eftir hjá liðinu í deildinni.

Litlu munar að PAOK vinni gríska meistaratitilinn en liðið trónir á toppi deildarinnar með 74 stig og átta stiga forskot á Olympiacos sem er í 2. sæti. PAOK á tvo leiki eftir í deildinni á meðan Olympiacos á þrjá eftir.

Sverrir Ingi, sem gekk til liðs við PAOK í janúarmánuði, hefur ekki enn leikið fyrir PAOK í deildinni. Hann hefur spilað nokkra bikarleiki en í þarnæstu viku mun liðið spila seinni leikinn í viðureigninni við Asteras Tripolis í undanúrslitum grísku bikarkeppninnar. PAOK leiðir einvígið 2-0 eftir fyrri leikinn.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun