Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ögmundur hélt hreinu í sigri – Kjartan í tapliði

Ögmundur Kristinsson hélt hreinu með liðu sínu í grísku úrvalsdeildinni og Kjartan Henry var í tapliði.

Ögmundur Kristinsson er enn og aftur að gera góða hluti með liði sínu, AE Larissa, í grísku úrvalsdeildinni, en hann hélt í dag hreinu er lið hans vann 0-1 útisigur gegn AEK Aþenu.

Ögmundur hefur nú haldið hreinu í tólf leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni.

Aðeins ein umferð er eftir í grísku úrvalsdeildinni og lið Ögmundar, AE Larissa, á ekki lengur í hættu á að falla niður um deild. AE Larissa er í 9. sæti með 34 stig og fimm stigum frá umspilsfallsæti.

Kjartan Henry í tapliði

Kjartan Henry Finnbogason lék fyrstu 72. mínúturnar þegar Vejle laut í lægra haldi fyrir AGF frá Árhúsum í umspili dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Kjartan og félagar í Vejle voru einum manni færri eftir hálftíma leik en liðið fór hins vegar með 2-1 forystu inn í leikhlé.

AGF frá Árhúsum jafnaði metin í 2-2 eftir klukkutíma leik og bætti svo við tveimur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins.

Vejle leikur þessa stundina ásamt liðunum AGF frá Árósum, Horens og SønderjyskE í riðli eitt í fall-umspili dönsku úrvalsdeilarinnar. Vejle er í neðsta sæti riðilsins og er ekki í góðum málum.

Ein umferð er eftir í riðlinum og neðstu tvö liðin þurfa í framhaldinu að spila leiki til að halda sæti sínu í deildinni. Vejle er með 28 stig og á ekki möguleika á að ná Horens, sem er í 2. sæti með 33 stig.

Ingvar og Frederik Schram léku báðir í dönsku B-deildinni

Ingvar Jónsson varði mark Viborg sem gerði í dag 1-1 jafntefli við Næstved í dönsku B-deildinni í dag.

Ingvar og félagar eru á góðri leið með að tryggja sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni að ári en liðið er á toppi dönsku B-deildarinnar með 47 stig.

Frederik Schram stóð þá allan tímann í marki Roskilde sem gerði 2-2 jafntefli við Fredmad Amager. Roskilde er í 9. sæti dönsku B-deildarinnar með 31 stig eða fjórum stigum frá fallsæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun