Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ögmundur hélt hreinu – Frederik Schram lék í jafntefli

Ögmundur Kristinsson hélt í dag hreinu með liði sínu AE Larissa. Frederik Schram lék svo með FC Roskilde í dag.

Ögmundur í leik með Íslandi árið 2017. ÍV/Getty

Ögmundur Kristinsson er enn og aftur að gera góða hluti með liði sínu, AE Larissa, í grísku úrvalsdeildinni, en hann hélt í dag hreinu er lið hans vann 2-0 sigur á Levadiakos.

Þetta er annar leikurinn í röð sem hann heldur hreinu og jafnframt sá tíundi á leiktíðinni í öllum keppnum.

Ögmundur átti góðan leik í dag og hann varði til að mynda erfiða skottilraun á 57. mínútu leiksins.

Lið Ögmundar er í ágætis málum í grísku úrvalsdeildinni en það siglir lignan sjó í 10. sæti deildarinnar, með 26 stig, þegar sex umferðir eru eftir af leiktíðinni.

Frederik Schram varði svo mark FC Roskilde í dönsku í B-deildinni í dag þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Fremad Amager.

FC Roskilde er ekki í góðum málum í deildinni, því það situr á botni deildarinnar, með 21 stig eftir 21 umferð. Aðeins einu stigi munar þó á öruggu sæti hjá liðinu.

Tólf lið leika í dönsku B-deildinni og tvö neðstu liðin munu falla úr henni í vor.

Markmaðurinn Ingvar Jónsson var ekki leikmannahópi Viborg sem beið lægri hlut fyrir Hvidovre, 0-2, í dönsku B-deildinni í dag. Viborg trónir á toppi deildarinnar, með alls 35 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun