Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ögmundur er taplaus í síðustu fjórum leikjum

Ögmundur stóð allan tímann í marki AE Larissa sem vann 2-1 sigur í grísku úrvalsdeildinni í dag.

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson heldur áfram að gera góða hluti í grísku úrvalsdeildinni en hann stóð allan tímann í marki AE Larissa sem vann 2-1 heimasigur á Asteras Tripolis í dag.

Fyrir leikinn í dag hafði Ögmundur haldið hreinu í þrjá leiki í röð. Ögmundur fékk eitt mark á sig í dag en hann er aftur á móti taplaus í síðustu fjórum leikjunum í deildinni.

Lið Ögmundar, Larissa, siglir lygnan sjó í grísku úrvalsdeildinni en það er í 9. sæti deildarinnar með 30 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af leiktíðinni.

Aðeins fjórum stigum munar þó á Larissa og liðinu í 13. sæti, sem er umspilsfallsæti. Neðstu þrjú liðin í deildinni munu í vor falla beint niður um deild.

Ögmundur var í 23 manna leikmannahópi Íslands í landsleikjunum gegn Andorra og Frakklandi.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun