Fylgstu með okkur:

Fréttir

Nýr forseti Úkraínu talaði um íslenska landsliðið í ræðu sinni

Nýkjörinn forseti Úkraínu lýsir yfir þeirri von að sín þjóð nái álíka árangri eins og landslið Íslands síðustu ár.

Volodimír Selenskij vill læra af Íslandi.

Volodimír Selenskij, nýkjörinn forseti Úkraínu, hélt jómfrúarræðu sína í gær. Þar talaði hann um íslenska landsliðið í fótbolta og lýsir yfir þeirri von að sín þjóð nái álíka árangri eins og landslið Íslands síðustu ár. Miðlar í Úkraínu fjölluðu um þetta í gær.

Selenskij hefur verið grínisti og gamanleikari síðustu ár í Úkraínu en hann bauð sig fram í embætti forseta þar í landi og sigraði með um 73 prósentum atkvæða.

Selenskij áminnti þjóð sína á það kraftaverk þegar Ísland komst á tvö stórmót í fótbolta með stuttu millibili. Hann hefur trú á því að Úkraína komist á næsta stórmót í fótbolta.

Úkraína endaði með engin stig í riðli sínum á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016 og komst ekki á Heimsmeistarmótið í Rússlandi síðasta sumar eftir að hafa lent fyrir neðan Ísland og Króatíu í undanriðli fyrir mótið.

Selenskij rifjar upp þegar íslenska landsliðið samanstóð af tannlækni, kvikmyndaleikstjóra, nema, bæjarstarfsmanni, flugnema og öðrum sem börðust fyrir land og þjóð og kveiktu stolt í hjörtum allra landsmanna. Selenskij vill taka Ísland sem fyrirmynd í framtíð Úkraínu hvað varðar landslið í fótbolta.

Dæmi Selenskij um önnur starfsheiti leikmanna íslenska landsliðsins er án efa skemmtileg nálgun. Þar vísar hann til þess að Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari, hafi verið tannlæknir og Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, sé kvikmyndaleikstjóri. Hannes leikstýrði m.a. auglýsingu Coca-Cola fyrir HM í Rússlandi og hefur átt farsælan feril í því starfi. Neminn er Kári Árnason en við nánari athugun nam hann viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og til viðbótar spilaði hann með tveimur háskólum í Bandaríkjunum, Gonzaga og Adelphi, áður en hann hóf atvinnumannaferil sinn.

Bæjarstarfsmaðurinn á að vera Sverrir Ingi Ingason, líklega vegna sumarstarfa í Kópavogi fyrir nokkrum árum, og þá er flugneminn Birkir Már Sævarsson sem byrjaði í flugnámi vegna lítillar trúar á að ná árangri í fótbolta. Í 2. flokki hætti hann í náminu þar sem hann komst inn í meistaraflokk Vals og nokkrum árum síðar fór hann út í atvinnumennsku. Síðan þá hefur hann leikið fjöldan allan af landsleikjum.

Þess má til gamans geta að Árni Vilhjálmsson leikur með liði Chornomorets Odessa í Úkraínu og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til að leika með félagsliði þar í landi, en byrjun hans hefur verið góð og hefur hann gert fjögur mörk í níu leikjum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir