Fylgstu með okkur:

Fréttir

Napoli og Dortmund höfðu áhuga á Arnóri

Arnór segir að félögin Napoli og Dortmund hafi sýnt sér áhuga í sumar.

Mynd/SportExpress

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson hefur átt frábæra byrjun hjá liði sínu CSKA Moskvu í Rússlandi og hefur heillað nokkur stór félög með frammistöðum sínum.

Í sumar voru félög á borð við Napoli frá Ítalíu og Dortmund frá Þýskalandi nefnd til sögunnar sem mögulegir næstu áfangastaðir fyrir Arnór, sem segir í dag frá áhuga þeirra í hlaðvarpsþættinum Miðjan á Fótbolti.net.

„Það var alls konar áhugi, fyrirspurnir og svoleiðis. Ég tók þá ákvörðun að ég þurfi að þroskast aðeins meira sem leikmaður áður en ég tek það stökk. Þess vegna fannst mér mikilvægt að vera áfram í Moskvu og spila eitt til tvö tímabil í viðbót,“ sagði Arnór í Miðjunni.

Arnór segir að engin tilboð hafi borist en mikill áhugi var til staðar. Napoli sýndi honum áhuga og fyrirspurn kom frá Dortmund.

„Þeir [Napoli] voru áhugasamir. Dortmund spurðist fyrir um mig og síðan var hellingur í Englandi. Það voru alls konar fyrirspurnir en það voru engin tilboð sem komu.“

Arnór segir að hugmyndin um stærri félög hafi kitlað mikið en vill þó flýta sér hægt.

„Þegar eitthvað kemur upp eins og Napoli þá hugsar maður auðvitað hvað þetta kitlar mikið og hversu stórt þetta er, en maður þarf líka að vera skynsamur í þessu. Ég er í góðu liði og er að spila. Það er mikilvægt að flýta sér hægt.“

Arnór skoraði fimm mörk í rússnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og tvö mörk í Meist­ara­deild Evr­ópu, gegn Roma og Real Madrid. Þá hefur hann skorað tvö mörk það sem af er núverandi leiktíð.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá allt það helsta hjá Arnóri með CSKA Moskvu:

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir