Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Myndband: Rúnar á skot­skón­um þegar Astana fór áfram

Rúnar Már skoraði mark fyrir Astana úr vítaspyrnu þegar liðið komst áfram í undankeppni Evrópudeildarinnar.

Mynd/KazFootball.kz

Rúnar Már Sigurjónsson og liðsfélagar hans í Astana unnu ör­ugg­an 4-1 heimasig­ur gegn Santa Coloma frá Andorra í seinni leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar í dag.

Fyrri leikur liðanna endaði með markalausu jafntefli. Santa Coloma skoraði í dag eftir aðeins sjö mínútur en Rúnar Már jafnaði metin fyrir Astana á 24. mínútu leiksins með marki úr vítaspyrnu. Rúnar lék á miðjunni hjá Astana þar til honum var skipt af velli á 63. mínútu, en markið hans í leiknum má sjá hér að neðan.

Í seinni hálfleiknum fór Marin Tomasov, samherji Rúnars Más, á kostum því hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Astana. Lokatölur leiksins urðu 4-1 og Astana er því komið áfram í 3. umferð undankeppninnar.

Rúnar Már og félagar í Astana mæta Vall­etta frá Möltu í næstu umferð en fyrri leikur liðanna verður spilaður eftir viku.

Albert Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá AZ Alkmaar sem vann 3-0 útisigur gegn sænska liðinu Häcken í seinni leik liðanna í dag. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli og AZ er því komið áfram í næstu umferð og mætir þar Mariupol frá Úkraínu.

Þá var Hólmar Örn Eyjólfsson ekki í leikmannahópi Levski Sofia sem steinlá fyrir AEK frá Kýpur, 4-0, í seinni leik liðanna í dag. Levski tapaði einvíginu samanlagt 7-0. Hólmar Örn er enn frá keppni eft­ir að hafa slitið kross­band í hné í nóvember á síðasta ári en það styttist í endurkomu hjá honum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið