Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Millwall með sterk­an sig­ur – Ísak hlaut eld­skírn hjá Joey Barton

Jón Daði spilaði í góðum sigri Millwall og Ísak Snær hlaut eld­skírn með Fleetwood Town.

ÍV/Getty

Jón Daði Böðvarsson og liðsfélagar hans í Millwall náðu í dag að knýja fram 1-0 sigur þegar þeir fóru í heimsókn til Preston í ensku B-deildinni.

Jón Daði var í byrjunarliði Millwall annan leikinn í röð og lék fyrstu 86 mínúturnar. Shaun Hutchinson skoraði eina mark leiksins og jafnframt sigurmark Millwall á 78. mínútu leiksins.

Millwall er komið upp í 10. sæti ensku B-deildarinnar eftir 33 leiki og hefur 49 stig, fjórum stigum á eftir síðasta umspilssætinu, sjötta sætinu sem Preston situr í. Jón Daði hefur leikið 22 deildarleiki á leiktíðinni og er búinn að skora tvö mörk í deildinni.

Ísak Snær Þorvaldsson lék þá sinn fyrsta leik fyrir Fleetwood Town í ensku C-deildinni þegar liðið hafði betur gegn Peterborough United, 2-1.

Ísak Snær, sem leikur á lánssamningi frá Norwich út tímabilið, hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður og lék síðustu sex mínúturnar. Fleetwood Town er í 8. sæti deildarinnar með 51 stig, en þjálfari liðsins er hinn skrautlegi Joey Barton.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun