Fylgstu með okkur:

Fréttir

„Mikilvægt að spila með aðalliði sem fyrst til að þroskast sem leikmaður“

Skagamaðurinn ungi Ísak Bergmann segir það mikilvægt að spila með aðalliði sem fyrst til að þroskast sem leikmaður.

Mynd/ifknorrkoping.se

Ísak Bergmann Jó­hann­es­son skoraði úr sinni spyrnu í gær þegar lið hans Norr­köp­ing hafði betur gegn FC Kaupmannahöfn í víta­spyrnu­keppni eftir venjulegan leiktíma á æfingamóti á Al­gar­ve í Portúgal.

Ísak Bergmann fékk í gær hrós frá Erik Hamrén, landsliðsþjálfara A karla, sem hefur verið í Portúgal síðustu daga til að fylgjast með nokkrum íslenskum leikmönnum. Hamrén er hrifinn af því sem hann hefur séð frá Skagamanninum unga og segir hann hafa rétta hugarfarið til að ná langt.

„Það er gam­an að heyra það frá þjálfara sem býr yfir mikilli reynslu. Vel hefur gengið hjá honum með landsliðinu og nú vonum við að landsliðið komist á Evrópumótið. Það er gam­an að heyra að Erik Hamrén finn­ist ég vera góður leikmaður. Ég þarf að halda áfram að leggja hart að mér,“ sagði Ísak Bergmann í viðtali við Fotbollskanlen í gær.

„Ég er með gott hugarfar og það er minn helsti styrkur. Þú verður að hafa það til að ná langt. Á eftir því koma hæfileikarnir og tæknin. Ég mun halda áfram að vinna með hugarfarið og það er gaman að heyra Hamrén tala um það.“

„Ég spilaði í 45 mínútur og ég held að það hafi gengið vel. Við áttum góðan leik. FC Kaupmannahöfn er mjög gott lið og við vorum töluvert betri í varnarleiknum en gegn Brønd­by. Ég klúðraði víti á sama stað í fyrra og það var gott að skora í þetta skiptið. Ég æfi vítin mjög mikið.“

Ísak Berg­mann gekk til liðs við Norr­köp­ing frá ÍA á síðasta ári og lék einn deildarleik með sænska liðinu í efstu deild Svíþjóðar á síðustu leiktíð. Nokkur stór lið í Evrópu voru á höttunum eftir honum áður en hann fór til Norr­köp­ing.

„Það voru nokk­ur stór lið í Evr­ópu sem vildu fá mig í sínar raðir en þar voru möguleikarnir ekki miklir til að spila með aðalliði, held­ur að spila með unglingaliðum. Liðin sem voru áhugasöm voru m.a. Ju­vent­us, FC Kaupmannahöfn, Brønd­by, Mönchengla­dbach og fleiri. Það er helsta ástæða þess að ég valdi að leika fyrir Norr­köp­ing. Að mínu mati er mikilvægt að spila með aðalliði sem fyrst til að þroskast sem leikmaður.“

Ísak þykir gríðarlegt efni og hefur leikið 21 leik með yngri landsliðum Íslands. Í þeim leikjum hefur hann skorað 11 mörk, en í meðfylgjandi myndskeiði má sjá svipmyndir af honum í leikjum með bæði Norr­köp­ing og yngri landsliðum Íslands.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir