Fylgstu með okkur:

Fréttir

Mikill áhugi á Árna – Dynamo Kyiv sagt áhugasamt

Mörg félög eru áhugasöm um þjónustu Árna Vilhjálmssonar. Eitt þeirra er Dynamo Kiev.

Árni Vilhjálmsson.

Mörg lið hafa sýnt Árna Vilhjálmssyni, leikmanni Chornomorets Odessa í Úkraínu, áhuga síðustu vikurnar. Árni hefur reynst liði sínu drjúgur liðsmaður að undanförnu og hefur skorað töluvert af mörkum upp á síðkastið.

Árni á stóran þátt í því í að Chornomorets sé enn í baráttu um að halda sæti sínu í úkraínsku úrvalsdeildinni en liðið sat á tíma í botnsæti áður en það tryggði sér á dögunum tvo fallumspilsleiki við liðið Kolos Kovalivka úr B-deildinni í Úkraínu um laust sæti í efstu deild að ári.

Árni hefur leikið 13 leiki fyrir Chornomorets og í þeim skorað 7 mörk en hann gekk í raðir félagsins í febrúarmánuði að láni frá pólska félaginu Termalica Nieciecza út þetta keppnistímabil.

Dynamo Kyiv sagt áhugasamt

Eins áður segir hafa mörg félög áhuga á Árna. Eitt þeirra er Dynamo Kiev sem hefur riðið feitum hesti í Úkraínu á þessari öld. Liðið hefur orðið níu sinnum Úkraínumeistari frá aldamótum og til viðbótar orðið sjö sinnum bikarmeistari.

Cesare Marchetti, umboðsmaður Árna, telur líklegt að Chornomorets Odessa hafi ekki nægt fjármagn til að festa kaup á Árna í félagsskiptaglugganum í sumar, en þetta staðfesti hann í samtali við SportArena í Úkraínu. Þá segir Marchetti að Árni sé áhugasamur um að reyna fyrir sér á stærra sviði.

Árni kveðst vera mjög ánægður með dvöl sína í Úkraínu samkvæmt Marchetti: „Hann kann mjög vel við sig í Úkraínu og er áhugasamur um að leika þar áfram. Odessa er flott borg og Árni er ánægður með aðdáendur sína og félagið sjálft, en hann eygir möguleika á að spila annars staðar til að fá fleiri tækifæri með landsliðinu. Til að taka dæmi væri Dynamo Kiev draumaáfangastaður fyrir leikmann í Úkraínu,“ sagði Cesare Marchetti, umboðsmaður Árna.

Marchetti segist vera í viðræðum við liðin Desna, Karpaty og Lvov í Úkraínu sem hafa áhuga á að fá Árna til liðs við sig. Að auki eru liðin Vorska og Oleksandriya í Úkraínu áhugasöm, ásamt FC Ufa í Rússlandi, Craiova í Rúmeníu og nokkrum félögum í pólsku úrvalsdeildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir