Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Mikael með þrennu fyrir varalið Excelsior – Elías skoraði eitt

Mikael Anderson var í gær með þrennu í varaliðsleik með Excelsior í Hollandi.

ÍV/Getty

Hinn 20 ára gamli Mikael Neville Anderson var heldur betur á skotskónum með varaliði Excelsior í Hollandi í gær.

Mikael gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk í varaliðsleik með Excelsior í 6-0 sigri á Jong FC Eindhoven í gær. Elías Már Ómarsson, sem er einnig leikmaður Excelsior, gerði eitt mark í leiknum.

Varalið Excelsior leikur um þessar mundir í fall-umspili í varaliðsdeildinni í Hollandi. Leikurinn í gær var sá sjöundi í umspilinu og varalið Excelsior er í fimmta sæti af ellefu liðum.

Mikael skoraði fyrsta markið sitt snemma í leiknum, á 8. mínútu, og hin tvö mörkin komu á stuttu millibili rétt eftir leikhlé, á 48. mínútu og á 51. mínútu. Elías Már skoraði annað mark liðsins á 38. mínútu.

Mikael er á láni hjá Excelsior frá Midtjylland í Danmörku út þessa leiktíð, en hann hefur leikið 15 leiki fyrir aðallið Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og skorað eitt mark í þeim leikjum. Hann getur bæði spilað á vinstri og hægri kanti.

Hann á einn A-landsleik fyrir Ísland og alls 13 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Áður en Mikael fór að leika fyrir Excelsior í Hollandi þá hafði hann búið í Danmörku frá 11 ára aldri. Hann á að baki leiki með U18 og U19 ára landsliðum Dana.

Móðir Mikaels kemur frá Íslandi en faðir hans er frá Jamaíka. Hann valdi árið 2017 að spila frekar með íslenska U21 landsliðinu heldur en því danska.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun