Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Mikael hafði betur gegn Hirti

Mikael hafði betur gegn Hirti í Íslendingaslagnum í Danmörku í dag.

ÍV/Getty

Midtjylland vann 1-0 sigur á Brøndby í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Mikael Anderson lék fyrstu 71 mínútuna fyrir Midtjylland á vinstri kantinum og Hjörtur Hermannsson spilaði í 70. mínútur í stöðu hægri bakvarðar fyrir Brøndby. Gera má því fastlega ráð fyrir því að þeir tveir hafi tekist á í leiknum.

Eina mark leiksins var sjálfsmark hjá Anton Skipper og það kom á 7. mínútu leiksins. Lokatölur urðu því 1-0, Midtjylland í vil.

Midtjylland er nú komið á topp deildarinnar með 22 stig eftir úrslit dagsins en átta umferðir hafa verið leiknar í deildinni. Fyrir leikinn hafði FC Kaupmannarhöfn verið með jafnmörg stig og Midtjylland á toppnum en Kaupmannahafnarliðið tapaði í dag fyrir Álaborg, 1-0.

Jón Dagur Þorsteinsson sat fyrr í dag allan tímann á varamannabekk AGF frá Árósum sem vann 1-0 sigur á Esbjeg. AGF er í 6. sæti með 11 stig.

Guðmundur Þórarinsson lék þá allan leikinn fyrir lið sitt Norrköping þegar liðið hrósaði 2-0 sigri gegn Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Norrköping í 7. sæti deildarinnar með 40 stig, fjórum stigum á eftir Evrópusæti.

Í norsku úrvalsdeildinni lék Arnór Smárason allan leikinn fyrir Lillestrøm í 3-1 tapi liðsins gegn Brann. Lillestrøm hefur 25 stig í 9. sæti deildarinnar eftir 20 umferðir.

Samúel Kári Friðjónsson spilaði um tuttugu mínútur sem varamaður fyrir Viking er liðið gerði 2-2 jafntefli við Sarpsborg. Viking er 8. sæti með 26 stig, einu stigi meira en Lillestrøm.

Þá lék Matthías Vilhjálmsson allan leikinn fyrir Vålerenga sem gerði 1-1 jafntefli gegn Rosenborg. Vålerenga er í 7. sæti deildarinnar og hefur 27 stig, jafnmörg stig og Viking en með betri markatölu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun