Fylgstu með okkur:

Fréttir

Meiðslin úr sög­unni hjá Jóni Daða

Jón Daði skoraði tvö mörk fyrir Millwall á dögunum og segist nú vera orðinn 100% heill heilsu.

Mynd/Millwall

Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson minnti heldur betur á sig í leik með Milwall í enska deildabikarnum í vikunni en hann skoraði tvö mörk þegar liðið var slegið út af C-deildarliðinu Oxford United.

Jón Daði, sem lék allan leikinn, skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en Oxford náði að jafna metin með því að skora tvö mörk á lokakafla leiksins og þurfti því að útkljá leikinn í vítaspyrnukeppni og hafði Oxford þar betur, 4-2. Jón Daði tók vítaspyrnu fyrir lið sitt en brást bogalistinn á punktinum.

Jón Daði gekk til liðs við Millwall í sumar og skrifaði undir langtímasamning við félagið sem leikur í ensku B-deildinni. Hann kom til félagsins frá Reading þar sem hann lék í rúm tvö ár.

„Mér finnst ég núna vera orðinn 100% heill heilsu,“ sagði Jón Daði í viðtali á dögunum. „Ég hafði ekki leikið í 90 mínútur í rúmt hálft ár og að ná því var mjög jákvætt.“

Síðasta árið hefur verið nokkuð erfitt fyrir Jón Daða þar sem meiðsli hafa sett strik í reikninginn og voru þetta fyrstu mörk hans síðan hann skoraði tvö mörk fyrir Reading í september á síðasta ári gegn Brentford í ensku B-deildinni.

„Tímabilið á síðustu leiktíð var martröð hvað varðar meiðsli. Ég var oft að glíma við smávægileg meiðsli og náði því aldrei neinu almennulegu flugi á tímabilinu. Eins og sakir standa þá líður mér mjög vel og er orðinn laus við öll meiðsli.“

Jón Daði verður þá að öllum líkindum í leikmannahópi Íslands sem verður valinn í dag en landsliðið mætir Moldavíu og Albaníu í undankeppni EM 2020 í næstu viku.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir