Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Matthías skoraði mark og lagði annað upp í stórsigri

Matthías skoraði eitt mark og lagði upp annað í stórsigri Vålerenga í kvöld.

Mynd/Aperopet

Matthías Vilhjálmsson var í aðalhlut­verki hjá Vålerenga í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Bodø/Glimt, 6-0, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni.

Matthías lagði upp annað mark heimamanna í Vålerenga á 18. mínútu leiksins og skoraði svo það fjórða fyrir liðið á 29. mínútu. Matthías lék fram að 68. mínútu, en hann hefur nú skorað fjögur deildarmörk og lagt upp önnur þrjú á leiktíðinni.

Oli­ver Sig­ur­jóns­son, sem leikur fyrir Bodø/Glimt, var ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld.

Vålerenga komst með sigr­in­um upp­fyr­ir Brann í 4. sæti deildarinnar og er með 24 stig eftir 14 leiki. Bodø/Glimt er 2. sæti með 26 stig og úrslit kvöldsins koma því nokkuð á óvart.

Skagamaðurinn Arnór Smárason spilaði fyrstu 64. mínúturnar fyrir Lillestrøm sem beið lægri hlut fyrir Kristiansund, 5-2, í kvöld. Lillestrøm situr í 12. sæti norsku úrvalsdeildarinnar og er með 15 stig.

Dagur Dan Þórhallsson vermdi varamannabekkinn allan tímann hjá Mjøndalen sem gerði markalaust jafntefli við Brann í kvöld. Mjøndalen er í 14. sæti, sem er það þriðja neðsta, og með 13 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun