Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Matthías skoraði í óvæntu tapi

Matthías Vilhjálmsson var á skotskónum með liði sínu Vålerenga í norsku bikarkeppninni í dag.

Matthías Vilhjálmsson var á skotskónum þegar lið hans Vålerenga sótti Bærum heim í 32-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í dag. Þau óvæntu úrslit urðu, að Bærum, sem leikur í þriðju efstu deild í Noregi, vann 5-3 sigur í leiknum.

Matthías byrjaði á varamannabekknum í leiknum og var skipt inn á sem varamanni á 56. mínútu. Matthías skoraði eitt mark, þriðja og síðasta mark Vålerenga. Þetta var annar leikurinn í röð hjá Matthíasi þar sem hann er á skotskónum í norsku bikarkeppninni, en hann skoraði í tvígang í stórsigri gegn Eidvold í síðasta mánuði.

Arnór Smárason spilaði síðustu 25 mínúturnar fyrir Lillestrøm sem tapaði fyrir Strømmen, 1-0, og Samúel Kári Friðjónsson lék allan tímann fyrir Viking sem vann 2-1 sigur á útivelli gegn Sandnes Ulf. Dagur Dan Þórhallsson lék síðasta korterið í 1-0 útisigri Mjøndalen gegn Grorud og þá spilaði Viðar Ari Jónsson allan leikinn fyrir Sandefjord sem laut í lægra haldi fyrir Odds Ballklubb eftir framlengdan leik og vítakeppni.

Viðar Örn Kjartansson og Kolbeinn Sigþórsson léku báðir æfingaleiki með liðum sínum í Svíþjóð í dag. Viðar Örn lék fyrsta klukkutímann þegar lið hans Hammarby tapaði fyrir Kalmar FF, 1-0, og Kolbeinn lék seinni hálfleikinn fyrir AIK sem gerði 1-1 jafntefli við Häcken. Um þessar mundir er hlé á keppni í sænsku úrvalsdeildinni en hún fer aftur af stað í byrjun júlí.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun