Fylgstu með okkur:

Fréttir

Markmiðið að verða aðalmarkvörður Brentford

Patrik Sigurður stefnir á að verða aðalmarkvörður Brentford innan nokkurra ára.

Mynd/Brentford

Patrik Sigurður Gunnarsson komst á dögunum upp í aðallið Brentford en Thomas Frank, knattspyrnustjóri félagsins, hef­ur hrif­ist af frammistöðu hans með varaliði félagsins.

„Patrik er ungur leikmaður og við höfum miklar mætur á honum. Hann á frábæra framtíð fyrir höndum og verður aðalmarkvörður félagsins ef hann heldur áfram á þessari braut. Hugarfar og viðhorf Patriks er til fyrirmyndar. Vinnusemi hans og ástríða fyrir því að bæta sig inn á vellinum er eitthvað sem allir ættu að taka sér til fyrirmyndar,“ sagði Thomas Frank um Patrik á heimasíðu félagsins á dögunum.

Pat­rik, sem er 18 ára, fram­lengdi samn­ing sinn við Brentford í sumar og er hann nú samningsbundinn félaginu fram á sumarið 2023, með möguleika á eins árs fram­leng­ingu til viðbótar.

Patrik gekk í raðir Brentford frá Breiðabliki síðasta sumar og lék einn leik með liðinu í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð, þar sem hann kom inn á sem varamaður í sigri liðsins í síðastliðnum marsmánuði.

Arnar Björnsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, ræddi við Patrik í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en markvörðurinn ungi og efnilegi er staddur á Íslandi til að taka þátt í verkefni með 21 árs landsliðinu.

„Eins og er þá gengur mér vel og það er búið að ganga vel síðan ég fór út fyrir rúmu ári. Það er allt á beinu brautinni eins og er,“ sagði Patrik.

Aðspurður hvort það sé markmið að verða aðalmarkvörður félagsins, svaraði kappinn:

„Það er markmiðið í framtíðinni. Við erum með plan. Þetta eru ekki stutt markmið, heldur meira langtíma markmið sem við erum að skoða, hvort það sé eitt eða tvö ár, en ég enn bara 18 ára og er að æfa á fullu. Hitt kemur seinna meir.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir