Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Marka­laust jafn­tefli hjá Rostov – Björn fór útaf vegna höfuðhöggs

Ragnar og Björn Bergmann léku báðir í markalausu jafntefli hjá Rostov í dag.

Björn Bergmann varð fyrir höfuðmeiðslum með Rostov í dag. ÍV/Getty

Íslendingaliðið Rostov náði ekki að sigra Dynamo Moskvu á útivelli í rússnesku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með markalausu jafntefli. Ragnar Sigurðsson og Björn Bergmann Sigurðarson voru báðir í byrjunarliði Rostov í leiknum.

Ragnar lék allan tímann í vörn Rostov á meðan Björn Bergmann var borinn af velli á sjúkrabörum eftir að hafa fengið höfuðhögg þegar lítið var eftir af leiknum. Björn missti ekki meðvitund en rússneskir miðlar telja líklegt að hann hafi fengið vægan heilahristing. Vonandi ekki alvarlegt.

Með úrslitum dagsins er Rostov að fjarlægjast möguleikanum um að ná umspilssæti um þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. 4. og 5. sæti deildarinnar gefa umspilssæti í þeirri keppni og þegar aðeins tveir leikir eru eftir af deildinni er Rostov í 7. sæti með 38 stig, fimm stigum frá umspilssæti.

Næsti leikur Rostov er á miðvikudaginn í næstu viku en þá mætir liðið Lokomotiv Moskvu í seinni leik liðanna í undanúrslitum rússnesku bikarkeppninnar. Fyrri leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun