Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Marka­laust jafn­tefli hjá AIK og Malmö

Íslendingaliðin AIK og Malmö gerðu markalaust jafntefli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Arnór Ingvi lék allan tímann fyrir Malmö í dag. Mynd/Vaaju

Marka­laust jafn­tefli varð niðurstaðan í Íslend­inga­slag AIK og Malmö í sænsku úr­vals­deild­inni í dag. Leikið var á heimavelli AIK.

Arnór Ingvi Traustason lék allan tímann fyrir Malmö og Kolbeinn Sigþórsson kom inn á sem varamaður fyrir AIK á 74. mínútu leiksins.

Marktækifæri voru á báða bóga en Malmö fékk fleiri færi í leiknum. Aðeins ein marktilraun fór á markið í leiknum sem kom frá Malmö en liðið átti alls átta marktilraunir í leiknum á móti fjórum frá AIK.

Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum átti Arnór Ingvi að fá vítaspyrnu þegar hann reyndi að spyrna að marki AIK. Arnór var kominn mjög nálægt marki AIK og reyndi skottilraun en boltinn fór í aðra hönd varnarmanns AIK og dómari leiksins dæmdi ekkert. Chinedi Obasi, leikmaður AIK, kom þá boltanum í markið hjá Malmö skömmu síðar en það mark fékk ekki að standa vegna rangstöðu. Lokatölur í leiknum urðu 0-0.

Bæði lið hafa farið mjög vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Malmö situr enn á toppi deildarinnar með 31 stig og AIK er í 2. sætinu með 25 stig.

Guðmundur Þórarinsson lék þá allan leikinn fyrir Norrköping sem þurfti að sætta sig við svekkjandi tap við Sirius, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Philip Haglund skoraði fyrir Sirius þegar aðeins ein mínúta lifði leiks.

Guðmundur og samherjar hans í Norrköping eru í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun