María valin ný­liði ársins hjá Linköping

María Catharina var útnefnd nýliði ársins hjá Linköping í Svíþjóð.
Ljósmynd/Linköping

María Catharina Ólafsdóttir Gros, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Linköping, var útnefnd nýliði ársins hjá liðinu fyrir leik þess gegn Kristianstad í gærkvöldi.

Við athöfnina fékk hún afhentan blómvönd og ávísun að andvirði 10.000 sænskra króna, sem jafngildir rúmum 130 þúsundum íslenskra króna. María svaraði viðurkenningunni með frábærri frammistöðu í leiknum, þar sem hún skoraði eitt mark og lagði upp annað í 2:2-jafntefli.

María hefur verið áberandi í liði Linköping í ár og er markahæst í leikmannahópnum með sjö mörk og þrjár stoðsendingar í 25 leikjum. Þrátt fyrir að liðið sé fallið niður í B-deild hefur hún átt einstaklega gott tímabil og er talið að frammistaða hennar hafi vakið athygli fleiri liða.

María, sem er 22 ára gömul, gekk til liðs við Linköping sumarið 2024 eftir að hafa leikið með Celtic í Skotlandi og Fortuna Sittard í Hollandi. Hún var valin í A-landslið Íslands í fyrsta sinn í haust og er talin einn efnilegasti leikmaður sinnar kynslóðar. Ein umferð er nú eftir af sænsku úrvalsdeildinni áður en tímabilinu lýkur.

Fyrri frétt

Lagði upp sig­ur­markið – Myndband

Næsta frétt

Glódís reyndist hetja Bayern – Myndband