Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Malmö náði sex stiga forskoti á toppnum

Arnór Ingvi og samherjar hans í Malmö eru komnir með sex stiga forskot á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigur í kvöld.

Mynd/Malmö

Arnór Ingvi Traustason og samherjar hans í sænska liðinu Malmö eru komnir með sex stiga forskot á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 sigur á Örebro í kvöld. Malmö er nú taplaust í síðustu 13 leikjum sínum í deildinni.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Malmö í leiknum en var tekinn af velli á 82. mínútu.

Marcus Antonsson kom Malmö á bragðið eftir rúmt korter með fínni afgreiðslu innan teigs og aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Filip Rogic metin í 1-1 fyrir Örebro með marki úr vítaspyrnu. Malmö var meira með boltann í leiknum og átti fleiri marktilraunir en Örebro, eða 12 á móti 5.

Malmö byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og sótti fast á vörn Örebro. Annað mark hjá Malmö lá í loftinu í síðari hálfleiknum og á 68. mínútu leiksins skoraði Anders Christiansen sigurmarkið í leiknum með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. Lokatölur 2-1, Malmö í vil.

Malmö hefur nú 34 stig í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og er þar komið með sex stiga forskot á AIK, sem er í 2. sæti deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun