Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Liverpool of stór biti fyrir Cardiff

Aron Einar lék allan leikinn þegar Cardiff City laut í lægra haldi fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

Aron í baráttu við Roberto Firmino í leiknum í dag. ÍV/Getty

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn þegar Cardiff City laut í lægra haldi fyrir Liverpool, 0-2, í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Liðin voru í dag að berjast á báðum endum ensku úrvalsdeildarinnar. Aron Einar og samherjar hans í Cardiff þurftu á sigri að halda í fallbaráttu sinni í deildinni og Liverpool þurfti einnig að sækja þrjú stig til að endurheimta toppsæti deildarinnar af Manchester City.

Markalaust var í leikhléi en á 57. mínútu leiksins skoraði Georginho Wijnaldum fyrir Liverpool með laglegri skottilraun upp úr hornspyrnu. Liverpool fékk víti tíu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma og það var James Milner sem fór á punktinn og tvöfaldaði forystuna fyrir Liverpool. Aron Einar var ósáttur með vítaspyrnudóminn og fékk gult spjald fyrir það.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og leikurinn endaði því með 0-2 sigri Liverpool.

Cardiff er enn í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem er fallsæti, en liðið er þremur stigum frá öruggu sæti þegar þrír leikir eru eftir af tímabilinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun