Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kristófer rær líklega á önnur mið í sumar – Leikur með varaliðinu út leiktíðina

Allt bendir til þess að Kristófer Ingi muni yfirgefa Willem II í sumar.

ÍV/Getty

Kristófer Ingi Kristinsson mun að öllum líkindum róa á önnur mið og yfirgefa hollenska úrvalsdeildarliðið Willem II í lok leiktíðar. Samningur hans við félagið rennur út í lok júnímánuði.

Íslendingavaktin hefur heimildir fyrir því að Kristófer hafi verið boðinn nýr samningur hjá Willem II en sá hafi ekki verið í samræmi við sambærilega leikmenn hjá félaginu.

Kristófer var ásamt nokkrum öðrum leikmönnum félagsins í viðræðum við Willem II og dagurinn í gær markaði síðustu for­vöð til að koma með lokasvar er varðar endurnýjun. Kristófer sendi ekki frá sér lokasvar og félagið mat það svo að hann hefði ekki áhuga á að endurnýja samning sinn.

Vefsíða Willem II tilkynnti í dag að Kristófer muni leika með varaliðinu það sem eftir lifi leiktíðar og það eigi þá að tengjast samningaviðræðunum.

Kristófer lék með aðalliði liðsins nú um helgina í 3-2 sigri gegn Fortuna Sittard. Hann byrjaði á varamannabekknum en lék allan seinni hálfleikinn.

Kristófer, sem er aðeins 19 ára, hefur leikið 11 leiki og skorað eitt mark fyrir Willem II í hollensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Kristófer á að baki samtals 32 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir