Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kristófer í sigurliði Grenoble – Jafntefli hjá Elíasi

Kristófer Ingi lék í sigri Grenoble og Elías Már þurfti að sætta sig við svekkjandi jafntefli með Excelsior.

Mynd/ledauphine.com

Kristófer Ingi Kristinsson var í sigurliði Grenoble þegar liðið lagði Troyes, 2-1, á útivelli í frönsku B-deildinni í kvöld.

Kristófer Ingi hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður á 73. mínútu leiksins og lék því í tuttugu mínútur eða svo.

Leikurinn var afar jafn en Grenoble náði forystunni á 36. mínútu og var staðan í hálfleik 1-0.

Eftir um klukkutíma leik jafnaði Troyes metin og var staðan jöfn þar til rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Grenoble og reyndist það sigurmarkið.

Grenoble er í 10. sæti deildarinnar af 20 liðum með 30 stig eftir 22 umferðir. Kristófer Ingi var að leika sinn þriðja deildarleik á leiktíðinni, en hann gekk í raðir Grenoble á síðasta ári.

Jafntefli hjá Elíasi Má

Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði Excelsior og lék í 84 mínútur þegar liðið gerði jafntefli á svekkjandi hátt gegn NAC Breda, 2-2, í hollensku B-deildinni.

Excelsior skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og liðið tvöfaldaði síðan forystu sína þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Bjugg­ust þá flest­ir við að Excelsior væri að fara fagna sigri. Allt kom hins veg­ar fyr­ir ekki, því NAC Breda tókst að jafna metin með tveimur mörkum á skömmum tíma í blálokin.

Excelsior er í 7. sæti með 37 stig eftir 24 leiki. Tvö efstu liðin fara upp um deild í vor á meðan liðin í 3.-8. sæti fara í umspil um laust sæti.

Þá hefur Albert Guðmundsson ekki náð sér af meiðslum og var hann ekki í leikmannahópi AZ Alkmaar þegar liðið bar sigurorð af botnliði RKC Waalwijk, 4-0, í hollensku úrvalsdeildinni. AZ Alkmaar er í öðru sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og topplið Ajax en með lakari markatölu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun