Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kristianstads vann Íslendingaslaginn – Jafntefli hjá Glódísi

Kristianstads hafði betur gegn Djurgården í Íslendingaslag í Svíþjóð.

Sif Atladóttir lék allan tímann í vörn Kristianstads í dag.

Íslendingaslagur fór fram í efstu deild kvenna í Svíþjóð þar sem Djurgården og Kristianstads mættust í 4. umferð deildarinnar í dag.

Það voru alls fimm Íslendingar sem spiluðu í leiknum. Í heimaliði Djurgården var Guðbjörg Gunnarsdóttir í markinu og fyrir framan hana voru þær Guðrún Arnardóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í miðverðinum. Hjá gestunum í Kristianstads var Sif Atladóttir í byrjunarliðinu og í seinni hálfleik kom Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir inn á sem varamaður á 84. mínútu. Svava Rós Guðmundsdóttir var ekki í leikmannahópi Kristianstads en hún fór meidd af velli í síðasta leik.

Leikurinn endaði með 0-2 útisigri Kristianstads. Það var hún Therese Ivarsson sem skoraði bæði mörk liðsins. Fyrra markið kom rétt fyrir leikhléið og það seinna var úr vítaspyrnu á 82. mínútu.

Kristianstads er 4. sæti með 7 stig eftir fyrstu fjóra leikina í deildinni. Djurgården er hins vegar aðeins með 3 stig í 10. sæti, sem er þriðja neðsta sætið.

Glódís Perla lék í jafntefli

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði einnig í efstu deild Svíþjóðar í dag. Hún var í byrjunarliði Rosengård sem tók á móti Kopparbergs/Göteborg.

Fyrri hálfleikurinn var afar tíðindamikill því öll mörkin í leiknum komu fyrir leikhléið. Rosengård var komið í 2-0 eftir aðeins 12. mínútur en Kopparbergs/Göteborg-liðið skoraði tvö mörk á fimm mínútum rétt fyrir hálfleikinn. Lokatölur 2-2.

Glódís Perla og stöllur hennar í Rosengård eru enn á toppi deildarinnar þrátt fyrir misst stig í dag en liðið er með 10. stig, þremur stigum meira en Pitea sem er í 2. sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun