Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Krasnodar komst í efsta sætið

Jón Guðni og samherjar hans í Kranodar endurheimtu toppsætið í rússnesku úrvalsdeildinni með sigri í dag.

Mynd/kuban.kp.ru

Jón Guðni Fjóluson og liðsfélagar hans í Krasnodar eru komnir í efsta sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar á nýjan leik eftir sigur á Ural, 4-2, í deildinni á útivelli í dag. Jón Guðni lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Krasnodar.

Dimitri Skoptintsev kom Krasnodar yfir á 19. mínútu leiksins en Yuri Bavin jafnaði metin fyrir Ural aðeins tveimur mínútum síðar. Ari kom gestunum í Krasnodar aftur yfir rétt fyrir leikhléið. Staðan 2-1 í hálfleik.

Ural jafnaði leikinn í 2-2 á 68. mínútu en þeir Daniil Utkin og Wanderson skoruðu báðir fyrir Krasnodar á síðustu tíu mínútum leiksins. Lokatölur 4-2 fyrir Krasnodar.

Krasnodar hefur nú 17 stig eftir átta leiki og komst þar með aftur upp fyrir Íslendingaliðið Rostov, með þá Ragnar Sigurðsson og Björn Bergmann Sigurðarson innanborðs, sem hafði í gær náð að tylla sér í efsta sætið með 2-1 sigri á Lokomotiv Moskvu. Krasnodar og Rostov eru jöfn að stigum en Krasnodar hefur talsvert betri markatölu og endurheimti því toppsæti deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun