Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Kolbeinn spilaði sinn fyrsta leik fyrir AIK

Kolbeinn Sigþórsson spilaði í dag sinn fyrsta leik fyrir sænska liðið AIK sem vann heimasigur á Eskilstuna.

Mynd/AIK

Kolbeinn Sigþórsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir sænska liðið AIK sem vann 2-1 heimasigur á Eskilstuna í 7. umferð í efstu deild Svíþjóðar í dag. Kolbeinn byrjaði á varamannabekk AIK en kom inn á sem varamaður á 65. mínútu leiksins.

AIK fékk vítaspyrnu eftir rúman hálftíma leik þegar varnarmaður Eskilstuna varð fyrir því óhappi að fá boltann í höndina. Daniel Sundgren fór á vítapunktinn fyrir AIK og skoraði af öryggi úr spyrnunni.

Rétt fyrir leikhlé var markmanni Eskilstuna vikið af velli fyrir ljótt brot á sóknarmanni AIK rétt fyrir utan vítateig. AIK með 1-0 forystu í hálfleiknum og liðið liðið lék einum leikmanni fleiri í seinni hálfleik.

Eftir aðeins fimm mínútur í seinni hálfleik náði Tarik Elyounoussi að tvöfalda forystuna fyrir AIK. Fimm mínútum síðar minnkaði Eskilstuna metin í 2-1 og þar við sat í markaskorun í leiknum.

Kolbeinn og félagar í AIK fara upp í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum í dag. AIK er með 7 stig eða jafn mörg stig og liðin fjögur sem eru í efstu fjórum sætunum en þau lið eiga öll eftir að spila um helgina.

Hér má sjá stutt myndband af Kolbeini í leiknum:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið