Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Kolbeinn skoraði í sigri AIK

Kolbeinn skoraði mikilvægt mark fyrir AIK í Evrópudeildinni í kvöld.

Mynd/Expressen

Kolbeinn Sigþórsson skoraði mikilvægt mark fyrir sænska liðið AIK gegn Sheriff frá Moldóvu í fyrri leik liðanna í 3. umferð for­keppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar í kvöld.

Varnarmaður Sheriff varð fyrir því óláni að skora í eigið mark á 12. mínútu leiksins og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Kolbeinn forystuna fyrir AIK þegar hann fékk góða sendingu innfyrir vörn Sheriff og skoraði laglegt skallamark. Kolbeinn var í byrjunarliði AIK í leiknum og lék fyrstu 76. mínúturnar.

Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Sheriff vítaspyrnu er varnarmaður AIK gerðist brotlegur innan teigs. Andrej Lukic tók spyrnuna fyrir Sheriff og skoraði úr henni en moldavíska liðið komst ekki lengra og lokatölur urðu 2-1, AIK í vil.

Kolbeinn og félagar í AIK eru því í nokkuð góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem verður í Svíþjóð eftir viku. Markið hans Kolbeins í kvöld má sjá hérna fyrir neðan.

Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn fyrir Brøndby sem beið lægri hlut fyrir Braga frá Portúgal, 4-2, á heimavelli í fyrri leik liðanna í kvöld. Hjörtur varð því fyrir því óhappi að skora sjálfsmark í leiknum í kvöld. Ekki er útlitið gott hjá Hirti og félögum hans fyrir síðari leikinn sem fer fram í Portúgal í næstu viku.

Guðmundur Þórarinsson spilaði þá í 85. mínútur með Norrköping í 1-1 jafntefli gegn Hapoel Beer Sheva frá Ísrael. Leikið var á heimavelli Norrköping og síðari leikur liðanna verður því í Ísrael eftir viku.

Willum Þór Willumsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá liði sínu BATE Borisov sem gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn FK Sarajevo frá Bosníu í fyrri leik liðanna í kvöld.

Mikael Anderson kom inn á sem varamaður þegar lið hans Midtjylland tapaði fyrir skoska liðinu Rangers, 4-2, á heimavelli í fyrri leik liðanna í kvöld.

Albert Guðmundsson lék síðustu mínúturnar með AZ Alkmaar sem gerði markalaust jafntefli við Mariupol frá Úkraínu í fyrri leik liðanna í kvöld, en AZ Alkmaar verður á heimavelli í næstu viku í síðari leik liðanna.

Þá var Arnór Ingvi Traustason ekki í leikmannahópi Malmö þegar liðið vann 3-0 heimasigur gegn Zrinjski Mostar frá Bosníu. Því er ekki að neita að byrj­un­in lof­ar afar góðu fyr­ir Arnór og félaga hans í einvíginu, en Arnór er enn fjarverandi vegna meiðsla.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið