Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kolbeinn sagður vera í viðræðum við Djurgården

Kolbeinn er í viðræðum við Djurgården, samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Kolbeinn í leik með Íslandi í vináttulandsleik við Frakkland síðasta haust. ÍV/Getty

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er íslenski framherjinn Kolbeinn Sigþórsson í viðræðum við sænska úrvalsdeildarfélagið Djurgården.

Fram kemur að Kolbeinn hafi fundað með Djurgården fyrr í dag.

Kolbeinn komst fyrir nokkrum vikum að samkomulagi við Nantes um riftun á samningi hans við félagið. Þar með lauk þriggja og hálfs árs dvöl hans hjá félaginu.

Það var fullyrt að hann hafi fengið á bilinu 1,7 til 2 milljónir evra í aðra hönd við það að segja upp samningi sínum við félagið.

Einnig var greint frá því að nokkur félög hefðu áhuga á þjónustu Kolbeins í kjölfar riftunarinnar. AZ Alkmaar, sem hann lék með tímabilið 2010-11, var sagt áhugasamt um að fá hann aftur í sínar raðir og þýska B-deildarfélagið Union Berlin var einnig nefnt á nafn í þeim efnum.

Nýtt leiktímabil hefst um næstu helgi og Djurgården mun í fyrstu umferðinni mæta GIF Sundsvall.

Kolbeini stóð til boða að ganga til liðs við sænska félagið IFK Göteborg í janúar á síðasti ári, en á þeim tíma vildi hann forðast það sem mest að spila á gervigrasvöllum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir