Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kolbeinn orðinn leikmaður AIK

Kolbeinn Sigþórsson hefur skrifað undir samning við sænska úrvalsdeildarfélagið AIK.

Mynd/Twitter/@aikfotboll

Kolbeinn Sigþórsson samdi í dag við AIK, ríkjandi meistara sænsku úrvalsdeildarinnar. Hann kem­ur til fé­lags­ins á frjálsri sölu eftir að hafa rift samningi sínum við franska liðið Nantes fyrr í mánuðinum. Kolbeinn skrif­ar und­ir samn­ing við AIK út árið 2021.

„Ég er sáttur með að hafa gert samning við AIK. Þetta hafa verið erfiðir tímar upp á síðkastið en ég er staðráðinn í að sýna hvað í mér býr. Hjá AIK er framtíðin björt og ég hlakka til að byrja að æfa og spila með liðinu,” sagði Kol­beinn í viðtali á heimasíðu fé­lags­ins.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig til að byggja mig upp og vera á þeim stað sem ég vil vera á. Félagið sýndi mér mikinn áhuga og vildi hjálpa mér að taka næsta skref á ferlinum,” bætti Kolbeinn við.

Kolbeinn mun leika í treyju númer 30 hjá AIK.

Kolbeinn hefur verið í Svíþjóð síðustu daga að skoða aðstæður hjá AIK. Fyrst var sagt hann væri í viðræðum við Djurgår­d­en en Bosse Anderssson, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, kannaðist ekki við þær fregnir.

Kolbeinn hefur lítið spilað síðustu ár vegna þrálátra hnémeiðsla en hann lék aðeins fjóra leiki á síðustu tveimur leiktíðum. Fyrir þremur leiktíðum lék hann 29 leiki sem var hans fyrsta tímabili með Nantes og í þeim leikjum skoraði hann fjögur mörk.

Sænska úrvalsdeildin fór aftur af stað um helgina og AIK gerði í dag markalaust jafntefli við Östersund.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir