Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kolbeinn og fé­lag­ar áfram í Meist­ara­deild­inni

Kolbeinn og samherjar hans í AIK tryggðu sér farseðilinn í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir sigur í kvöld.

ÍV/Getty

Kolbeinn Sigþórsson og samherjar hans í sænska meist­araliðinu AIK unnu nokkuð ör­ugg­an 3-1 sig­ur á Ararat-Armeníu í seinni leik liðanna í Svíþjóð í kvöld í 1. umferð for­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu.

Ararat-Armenía sigraði fyrri leikinn 2-1 og sænsku meistararnir í AIK þurftu á sigri að halda til þess að komast áfram í næstu umferð, sem raunin varð í kvöld.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en fyrirliði AIK, Henok Goitom, var tvívegis á skotskónum fyrir liðið fljótlega í síðari hálfleik og eftir rúman klukkutíma leik skoraði Sebastian Larsson þriðja mark AIK úr vítaspyrnu. Ararat-Armenía minnkaði muninn niður á 77. mínútu og þar við sat. Lokatölur urðu 3-1 fyrir AIK.

Kolbeinn byrjaði á varamannabekknum í leiknum en var skipt inn á 72. mínútu leiksins. Hann skoraði um síðustu helgi sín fyrstu mörk fyrir AIK þegar hann skoraði í tvígang í 3-0 sigri liðsins á Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni.

AIK mæt­ir sig­ur­veg­ar­an­um úr ein­vígi Maribor frá Slóveníu og Vals frá Íslandi í 2. umferð. Það er morgunljóst að Maribor mætir AIK, því nú stendur yfir seinni leikur Maribor og Vals og íslenska liðið er 5-0 samanlagt undir í einvíginu.

Uppfært, 20:15:

Astana, lið Rúnars Más Sigurjónssonar, féll í kvöld úr keppni í for­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu.

Rúnar lék í 82. mínútur fyrir Astana í 3-1 tapi liðsins gegn CFR Cluj frá Rúmeníu í seinni leik liðanna í 1. um­ferð undan­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu. Astana sigraði fyrri leikinn 1-0 en CFR Cluj vinnur einvígið samanlagt 3-2.

BATE Borisov komst þá í kvöld áfram í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu með 2-1 sigri á liði Piast Gliwice frá Póllandi. BATE komst áfram samanlagt 3-2. Willum Þór Willumsson leikur fyrir BATE og sat allan tímann á varamannabekk liðsins í kvöld. Hann átti að vera í byrjunarliðinu í kvöld en meiddist í upphitun fyrir leikinn.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun