Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kolbeinn lagði upp mark í bik­ar­sigri og klúðraði víti

Kolbeinn lagði upp mark í stórsigri AIK en brást bogalistin af vítapunktinum.

Mynd/dn.se

AIK, með Kolbein Sigþórsson innanborðs, er komið áfram í sænska bikarnum eftir 7-0 stórsigur á D-deildarliðinu Enskede á útivelli í dag. Kolbeinn lék allan leikinn fyrir AIK.

Kolbeinn lagði upp fyrsta mark AIK í leiknum á 23. mínútu en Sebastian Larsson skoraði markið. Tarik Elyounoussi skoraði tvívegis fyrir AIK í fyrri hálfleiknum og Sebastian Larsson skoraði svo fjórða mark liðsins rétt undir lok fyrri hálfleiks.

Tarik Elyounoussi gerði þriðja mark sitt eftir klukkutíma leik og staðan var því orðin 5-0. Kolbeinn fiskaði víti á 70. mínutu leiksins sem hann tók sjálfur en hinn 17 ára gamli Marvin Myhrberg varði frá honum.

AIK fékk aftur víti á 84. mínútu þegar leikmaður Enskede gerðist brotlegur innan teigs og fékk þar að auki rauða spjaldið. Bilal Hussein steig á punktinn fyrir AIK og skoraði.

Tom Strannegaard skoraði síðan sjöunda mark AIK rétt undir lok leiksins og þar við sat. 7-0 stórsigur hjá Kolbeini og félögum hans í AIK sem eru komnir áfram í bikarkeppninni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun